Tjarnablaðka er stórvaxin, hárlaus vatnajurt. Uppsveigðar greinar vaxa upp af skriðulum jarðstöngli á vatnsbotninum. Getur einnig vaxið uppi á landi meðfram vötnum. Blómin standa þétt saman í stuttum klösum sem teygja sig upp úr vatninu. Blómhlífarblöðin eru fimm, rauðbleik að lit, snubbótt. Stoðblöð blómanna eru dekkri, odddregin. Fimm fræflar eru í blómunum, og ein fræva með tveim stílum sem eru samvaxnir neðst. Laufblöðin eru stilkuð, blaðkan mjóegglaga eða lensulaga, 4-13 sm löng og 1,5-4 sm á breidd, grágræn eða oft mjög rauðleit með skýrum miðstreng og reglulegum hliðarstrengjum. Grunnur blöðkunnar ýmist ávalur eða lítið eitt bugaður á flotblöðum. Landplöntur hafa fremur mjólensulaga blöð sem mjókka niður að stilknum.
Blöð tjarnablöðkunnar fljótandi á tjörninni við Hofgarða á Snæfellsnesi sumarið 1985.
Hér sjáum við blómstrandi breiðu af tjarnablöðku á Hofgarðatjörn 17. ágúst 2008.
Hér sjáum við eitt blómstrandi ax tjarnablöðku í návígi.