Punturinn á lotsveifgrasi er lítill, dökkfjólublár og lítið eitt lotinn. Puntgreinar eru grannar en aðlægar. Smáöxin eru oftast tví- til þríblóma. Axagnir eru dökkar, breiðar en oddmjóar, 3-4 mm á lengd, þrítauga. Blómagnir eru með ógreinilegum taugum, hærðar neðan til, himnurendar, með fjólubláu belti ofan til. Blöðin eru fremur mjó, 1-2 mm, efstu stráblöðin uppi undir puntinum. Slíðurhimnan er 2-3 mm löng, odddregin.