er sjaldgæfur á
Íslandi, aðeins fundinn utan til á skögunum beggja vegna
Eyjafjarðar. Vestan megin er útbreiðslusvæði hans frá Höfðahólum á
Höfðaströnd í Skagafirði, um Fljótin, Siglufjörð, Héðinsfjörð og
Ólafsfjörð allt inn undir Dalvík. Austan Eyjafjarðar hefur hann fundizt
á nokkrum stöðum á Látraströnd, í Þorgeirsfirði, Hvalvatnsfirði og
Flateyjardal. Hann er nokkuð hávaxinn með allmörg ljósgræn
stöngulblöð sem feðma að hluta utan um stöngulinn (sbr. mynd). Hann
minnir nokkuð á suma undafífla. Hann vex í
gilskorningum, í krikum undir börðum og gilbrekkum eða í kjarri á
snjóþungum svæðum. Velur sér stundum svipaða vaxtarstaði og
skollakambur og er fremur inni í dölum en alveg út við ströndina.
Blóm hjartafífilsins standa í þéttum, fremur litlum
körfum á greinendum. Körfurnar eru 2-3 sm í þvermál, reifablöðin í tveim
krönsum, innri reifablöðin 12-13 mm á lengd, grænsvört með svörtum
kirtilhárum, þau ytri miklu styttri en mislöng. Öll blómin eru
tungukrýnd, gul, fræflar 5, samvaxnir í hólk utan um stílinn, tvíklofið
fræni. Stönglar eru nánast hárlausir. Laufblöðin eru nær hárlaus,
fagurljósgræn ofan en grágræn undir; stöngulblöðin eru
greipfætt og tennt,
þau efri mjóhjartalaga eða lensulaga, þau neðstu ganga niður í vængjaðan
stilk líkt og stofnblöðin.
Hjartafífill á
Kussungsstaðaafrétt í Hvalvatnsfirði 9. ágúst 2005.
Blóm hjartafífilsins í návígi.
Þessi mynd sýnir laufblöð hjartafífilsins.
Allar myndirnar teknar á sama stað í Hvalvatnsfirði.