Blóm maríulykilsins standa nokkur
saman í sveip efst á ógreindum stöngli. Krónupípan er 7-8
mm á lengd með útbreiddum kraga og 5 bleikrauðum krónuflipum með
skerðingu í endann. Bikarinn er 4-5 mm á lengd, klofinn
fjórðung niður, grænleitur með dökkum, fíngerðum dröfnum ofan til.
Fræflar eru 5, styttri en krónupípan. Ein fræva sem myndar
hýðisaldin með mörgum, ljósbrúnum fræjum við þroskun. Blómleggirnir
eru 5-10 mm á lengd með stuttum, mjóum stoðblöðum við
grunninn. Stöngullinn er blaðlaus, óloðinn, blöðin í stofnhvirfingu,
spaðalaga, 1-2 sm á lengd, dragast jafnt saman í stilk.
Maríulykill í Leifsstaðabrúnum í Eyjafirði árið 1995.
Blóm maríulykils í nærsýn í Leifsstaðabrúnum árið 1993.