Skarfakálið er tví- til fáær,
hárlaus jurt með hvít, fjórdeild blóm í klösum á stöngulendunum.
Krónublöðin eru spaðalaga, um 4 mm á lengd. Bikarblöðin eru grænleit eða
rauðfjólublá, sporöskjulaga eða öfugegglaga, 2 mm á lengd. Fræflar eru
sex með gulhvítar frjóhirslur. Ein hnöttótt fræva sem verður að stuttum,
sítrónulaga eða nær hnöttóttum skálpi, sem fullþroskaður er 5-7 mm á
lengd en 4-5 mm á breidd. Stöngulblöðin eru fá, tígullaga eða lensulaga
með fáeinum grófum tönnum eða sepum, stilklaus eða stilkstutt. Stofnblöð
eru mörg, blaðka stofnblaðanna er nýrlaga, hjartalaga eða kringlótt,
gljáandi að ofan, á löngum stilk sem venjulega er margfaldur að lengd
miðað við þvermál blöðkunnar. Blaðkan er heilrend, oftast um 2-4 sm í
þvermál, en getur farið niður í 2 mm á smáum plöntum.
Engin einhlýt skýring hefur fengist
á því hvernig á hinum dvergvöxnu skarfakálsplöntum stendur uppi á
háfjölllum. Þessar plöntur eru oftast aðeins 1-3 sm í þvermál, með lítil
kringlótt blöð og hnöttótta skálpa. Sumir telja líklegt að þetta sé
sérstakur stofn, eða jafnvel önnur tegund (Cochlearia
groenlandica) sem kalla mætti
fjallaskarfakál, en einnig gæti verið að hér sé um sömu tegund að ræða,
vaxna upp af fræjum sem fuglar bera með sér frá strandklettum upp til
fjalla.
Hér má sjá venjulegt skarfakál eins og það birtist í sjávarklettum. Myndin tekin undir Ólafsvíkurenni árið 1985.
Hér sjáum við hvernig skarfakálið kemur fyrir sjónir þar sem það birtist hátt til fjalla. Tekið í 1000 m hæð uppi á Gilsbakkafjalli í Skagafirði 3. ágúst 2008.
Hér er annað eintak uppi á Gilsbakkafjalli með þroskuðum skálpum.