Súrsmæran er smávaxin en
fjölær jurt. Blöð og blóm eru á 5-10 sm löngum, lítið eitt
hreisturhærðum stilkum upp af jarðstöngli með ljósbrúnum, þykkum
hreisturblöðum. Blómin eru fimmdeild, 1,5-2 sm í þvermál, krónublöðin
eru hvít með dekkri, stundum fjólubláum æðum. Bikarblöðin eru
oddbaugótt, samgróin neðst, grænleit, með rand-hærðum himnufaldi.
Blómstöngullinn hefur tvö örsmá hreisturkennd forblöð ofan við miðju.
Fræflar eru 10, ein fræva með 5 stílum. Fræin þeytast út við
aldinþroskunina. Blöðin eru þrífingruð eins og á smára, smáblöðin
öfughjartalaga, ljósgræn, lítið eitt hreisturhærð.
Jarð-stöngullinn er þéttsettur smáum, þykkum hreisturblöðum.
Myndin af súrsmæru er tekin í skógarreit við Fífilgerði í Eyjafirði. Þangað var hún flutt fyrir hálfri öld síðan, og hefur breiðst vel út í skógarbotninum.