Smávaxin, fjölær jurt með ógreindan
stöngul og eitt lítið, endastætt blómhnoða með þrem til fjórum blómum.
Brún, snubbótt stoðblöð eru framan við hvert blóm, en þar fyrir innan
eru blómhlífarblöðin sex í hverju blómi, gulhvít eða bleikleit en dekkri
í endann, snubbótt eða sljóydd. Fræflar eru sex, svipaðir að lengd og
blómhlífin, með gulhvítar frjóhirslur. Ein ljósleit fræva með þrískiptu
fræni er í miðju blómsins. Við þroskun verður aldinið dökkrauðbrúnt, 5-6
mm langt með stuttri trjónu í toppinn, klofnar í þrennt við opnun. Fræin
eru brún í miðju með ljósu viðhengi á báðum endum, í heild um 3 mm á
lengd. Blöðin eru sívöl, aðeins neðst á stönglinum eða stofnstæð.
Blómsefið er fremur auðþekkt frá
öðrum sefum, líkist helst flagasefi sem einnig hefur eitt lítið,
endastætt blómhnoða. Blómsefið þekkist frá því í blóma á hinni
ljósbleiku blómhlíf, og á því að stoðblað blómskipunarinnar er mjög
stutt eða vantar. Á flagasefi er lítið stoðblað áberandi til hliðar við
blómskipanina eða aldinin. Í aldini sést vel að blómsefið er 3-4 blóma,
en flagasefið oftast tvíblóma. Litningatalan er 2n = 50.
Blómsefið vex einkum í rökum flögum
og annars staðar í vætu. Það er algengt um allt land frá láglendi upp í
750 m hæð. Hæst hefur það fundist 920 m við Gæsavötn, og í 800 m í
Mávatorfu í Innri Veðurárdal í Suðursveit.
Blómsefið er fyrst skráð eftir
safni Königs frá 1765, og í ferðabók Sveins Pálssonar er þess getið í
nágrenni Austurhlíðar í Biskupstungum.
Blómsef í víðustu merkingu er útbreitt allan hringinn um norðurhjarann, og er í fjöllum sunnar í Evrópu. Sumir kjósa hins vegar að kljúfa það í tvö afbrigði eða tvær tegundir, Juncus triglumis og Juncus albescens (2n = 44). Ef við höldum okkur við þá skiptingu er blómsefið Evrópsk tegund sem nær nokkuð austur eftir Asíu, en Juncus albescens tekur við austast í Síberíu, Alaska, Kanada, og á Grænlandi, en nær ekki til Evrópu nema á Svalbarða. Mörkin milli þessara tegunda eru ekki fullljós