Hrafnaklukkan er fjölær, hárlaus
jurt með stuttum og þéttum blómklasa á toppi stöngulsins. Blómin eru
allstór, 1-1,5 sm í þvermál, fjórdeild. Krónublöðin eru bleik eða
fölfjólublá með dekkri æðum, sjaldnar hvít, 8-15 mm löng, naglmjó, ávöl
í endann eða örlítið skert. Bikarblöðin eru miklu styttri, 3-4 mm,
egglaga, ljósgræn og oft rauð í endann, oftast himnurend. Fræflar eru
sex með gulhvítar frjóhirzlur, ein fræva sem verður að 2-3,5 sm löngum
og 1-2 mm breiðum skálp, fræin eru dökk brún, 1,5-2 mm á lengd.
Laufblöðin eru fjöðruð, stöngulblöðin með mjóum, öfuglensulaga
smáblöðum, en stofnblöðin með breiðari, egglaga, öfugegglaga eða nær
kringlóttum smáblöðum.