Flóastör
Carex limosa
er allvíða um land,
algengust á Suðvestur- og Vesturlandi. Hún vex eingöngu í vel
blautum flóum á láglendi upp að 300 m. Hæstu fundarstaðir hennar eru í
470 m hæð í Kurbrandsmýri á Eyvindarstaðaheiði (staður sem nú er kominn
undir Blöndulón), og í 400-440 m í Heiðarárdrögum á Hrunamannaafrétti og
Súlumýrum syðri í Eyjafirði.
Flóastör er í meðallagi stór stör,
með einu til tveimur allstórum, hangandi, legglöngum kvenöxum og einu
uppréttu karlaxi. Axhlífar eru ljósbrúnar, yddar, með slitróttum jaðri
að ofan. Hulstrið er ljósmóleitt, gulbrúnt, trjónulaust, hrjúft. Frænin
eru þrjú. Stráin eru þrístrend, oft nokkuð snörp. Blöðin fremur mjó,
1,5-2 mm, blágræn, nokkuð löng, M- eða V-laga.
Flóastörin líkist nokkuð keldustör, en
þekkist helzt á grennri kvenöxum. Á keldustör virðast kvenöxin breiðari
vegna þess að axhlífarnar hafa lengri og útstæðari trjónur.