Melgresið er afar grófgert gras, með 12-20 sm löngu og 10-18 mm breiðu axi á stráendanum. Smáöxin eru oftast þríblóma, en stundum með fjórða blómið sem er þá gelt. Axagnir eru lensulaga, oddmjóar, 15-20 mm langar, oft lítið eitt hærðar. Blómagnir eru kafloðnar; þær neðstu álíka langar og axagnirnar; þær efri styttri, oddhvassar, en týtulausar. Frjóhnapparnir eru fjólubláir, um 5 mm langir. Stráin eru afar sterkleg, hárlaus. Blöðin eru breið, 5-10 mm, en verpast upp frá hliðunum í þurrki; blöð blaðsprota oft mjórri.