Blóm hrútaberjalyngsins eru
fimmdeild, 8-10 mm í þvermál. Krónu-blöðin eru hvítleit, spaðalaga,
naglgrönn. Bikarinn er klofinn langt niður; bikarblöðin eru græn, loðin,
oddmjó, 5-6 mm á lengd. Laufblöðin eru stilklöng,
þrífingruð, blaðstilkar loðnir og oft með örsmáum þyrnum. Smáblöðin eru
tvísagtennt, egglaga eða tígullaga; hliðarsmáblöðin á örstuttum stilk
eða stilklaus, miðsmáblaðið á nokkru lengri stilk, axlablöð lítil, 3-5
mm á lengd. Aldinin eru rauð, gljáandi steinaldin, 7-8 mm í
þvermál, sitja nokkur þétt saman, hvert með einum steini utan um fræið.
Blómstrað hrútaberjalyng á Suðurlandi árið 1983.
Hrútaberjalyng með þroskuðum berjum Leifsstaðabrúnum í Kaupangssveit árið 1991.