Blóm mýradúnurtar eru rauð; krónublöðin eru 7-9 mm á lengd. Bikarinn er nokkru styttri, rauður eða grænn. Fræflar eru fjórir. Ein fjórblaða fræva með einu óskiptu, kylfulaga fræni. Frævan er loðin, 4-6 sm á lengd, klofnar í fjórar ræmur við þroskun; fræin eru með hvítum svifhárum. Stöngullinn er sívalur, nokkuð jafnhærður hringinn í kring. Blöðin eru gagnstæð, mjólensulaga, heilrend eða gistennt, 2-4 sm á lengd, 3-7 mm á breidd, a.m.k. þau efri lítið eitt hærð. Seint á haustin myndar hún oft grannar, jarðlægar renglur með hnöttóttum rauðum laukknöppum á endanum.