Hófsóley er nokkuð stórvaxin, fjölær, hárlaus jurt með fimmdeildum blómum. Blómin eru stór, 3-4 sm í þvermál, fagurgul. Blómhlífin er einföld, krónublöð vantar. Bikarblöðin eru öfugegglaga, 12-18 mm á lengd, fagurgul á efra borði, stundum grænleit á neðra borði. Fræflar eru mjög margir, um 6-9 mm á lengd, gulir. Frævur eru um 7-14 talsins, verða að 5-10 mm löngum belghýðum með nokkrum fræjum hvert. Fræin eru dökk brún, aflöng, um 2-3 mm á lengd. Flest eru laufblöðin stofnstæð, hóflaga, langstilkuð, reglulega bogtennt, stöngulblöð stuttstilkuð og nýrnalaga.
Hófsóley er auðþekkt frá öðrum
sóleyjum, bæði á einfaldri blómhlíf og á hinum hóflaga, stóru blöðkum. Í
Flora Nordica er hófsóley skipt í tvær deilitegundir, subsp.
palustris sem er algengust, og subsp. radicans sem
skýtur rótum og myndar blaðhvirfingar út úr blaðöxlum og vex fremur til
fjalla. Aðeins subsp. palustris hefur verið staðfest hér á landi.
Blómstrandi hófsóley í Laugabrekku í Eyjafirði árið 1984.
Fullþroskuð belghýði hófsóleyjar á Arnarhóli í Eyjafirði 2. ágúst 2004.
Hér hafa belghýðin opnast og fræin tilbúin að dreifast um. Tekið á sama stað 2. ágúst 2004.