Toppastör
Carex krausei
er náskyld
hárleggjastör, og var áður fyrr talin afbrigði af henni, Carex
capillaris var. porsildiana.
Hún vex í fjallamóum, einkum flagkenndum móum. Hún
þekkist frá hárleggjastör á því að kvenblóm eru í toppaxinu auk
karlblóma, öxin eru leggstyttri og uppréttari og brúnni á litinn.
Toppastörin vex auk þess í þurrara landi, og hefur eindregna landræna
útbreiðslu, þ.e. hún er algengust inn til landsins,
lítið út við sjóinn og á láglendi. Algengust er hún innan til á
Norðurlandi eystra og öræfunum þar suður af. Hefur
einnig fundizt meðfram Vatnajökli að sunnanverðu og lítið eitt á
Suðurhálendinu, í Hvítárnesi og Þóristungum. Hún
vex frá um 200 m upp í 700 m. Hæstu fundarstaðir eru við Efri-Hitulaug
við Marteinsflæðu í 770 m, við Laugarfell og vestan við Laugarfellshnjúk
í 740 og 700 m hæð.
Toppastörin er lágvaxin stör með
3-5 öxum á grönnum, uppréttum leggjum, oft með töluverðu millibili á
efri hluta strásins. Toppaxið venjulega með kvenblómum efst en
karlblómum neðar, sjaldnar aðeins með karlblómum. Axhlífar eru brúnar
með breiðum himnukanti, hulstrið brúnt með broddóttri trjónu.
Frænin eru þrjú. Stráin eru grönn, gárótt, nær sívöl. Blöðin eru í toppum, 1-2 mm
breið neðan til, þrístrend í endann.