Hjartatvíblaðka
Listera cordata
er smávaxin jurt af
brönugrasaætt. Hún vex í lyngmóum og kjarri, oft í gilbrekkum.
Hún er nokkuð algeng um allt norðanvert landið, en heldur fátíðari á
Suðurlandi. Hún leynist vel undir lynginu fyrir þeim sem
ekki þekkja hana. Hún finnst frá láglendi upp í 400 m hæð, í köldum
jarðvegi hæst fundin á Réttargrund við Eilífsvötn í 490 m hæð, en finnst
einnig við jarðhita hjá Hitulaug Efri við Marteinsflæðu (750 m) og í
Land-mannalaugum (600 m).
Blóm hjartatvíblöðkunnar standa
nokkur saman í stuttum, gisnum klasa efst á stönglinum, 5-8
mm löng, móbrún eða brúnfjólublá. Blóm-hlífarblöðin eru flest snubbótt;
vörin djúpt klofin í tvo oddmjóa, gleiða flipa. Frævan er brúnfjólublá,
belgmikil, undir blómhlífinni. Stöngullinn er með tveim gagnstæðum,
stilklausum, 1-2 sm löngum, hjartalaga eða breiðegglaga
blöðum; auk þess eitt móleitt slíður neðst við stofninn.