Gulvíðir breiðir mikið úr sér til
hliðanna og myndar oft kringlótta runna sem verða 5-10 m í þvermál og
4-5 m á hæð. Þetta greinir m.a. gulvíðinn vel frá viðju, sem
oftast myndar granna, einstofna runna. Greinar gulvíðisins eru venjulega
klæddar gljáandi, dökkbrúnum eða rauðbrúnum hárlausum berki, stundum þó
ljósari brúnum eða grænleitum, einkum ársprotarnir. Laufblöðin eru 2-6
sm á lengd og 1-2,5 sm á breidd, oddbaugótt eða öfugegglaga, dökkgræn,
gljáandi og að jafnaði hárlaus á efra borði, ljósgræn eða lítið eitt
grádöggvuð og mött á neðra borði, oftast einnig óhærð þar eða stundum
með nokkrum hárum einkum á blaðstilkum, jöðrum og eftir æðastrengjum.
Ung blöð í vexti eru einnig fremur hærð en fullþroskuð blöð.
Blaðrendurnar eru greinilega niðurorpnar, oftast lítið eitt tenntar, en
stundum eru blöðin heilrend. Blómin eru einkynja í sérbýli, sitja mörg
saman í 2-6 (8) sm löngum reklum. Rekilhlífarnar eru með löngum hárum,
ljósmóleitar. Tveir fræflar eru í hverju karlblómi, frjóhirzlurnar gular,
ein loðin fræva í kvenblómunum, stíllinn og frænið gulgræn að lit.
Aldinin eru hærð, fremur gisstæð og standa nokkuð lárétt út frá reklinum,
oftast gulgræn á litinn, sjaldnar gráleit.
Blómstrandi gulvíðir í Fífilgerði í Kaupangssveit árið 1963
Kvenreklar gulvíðis vorið 2005 við Kúalæk í Kaupangssveit