Í fljótu bragði virðast skollaberin hafa einstök, allstór (1,5-2,5 sm), hvít, fjórdeild blóm, með misstórum pörum af gagnstæðum krónublöðum. Ef betur er að gætt reynast þessi stóru krónublöð vera hvít háblöð (þ.e. ummynduð, blaðgrænulaus laufblöð) með rauðum bletti í endann og standa þau umhverfis 6-20 örsmá, stuttstilkuð, sótrauð eða nær svört blóm sem mynda sveip á stöngulendanum. Hin raunverulega blómhlíf er aðeins 1-2 mm í þvermál, bikarinn samblaða, klukkulaga, með fjórum V-laga sepum. Krónublöðin eru svarfjólublá með fjórum krossstæðum, afturbeygðum sepum. Fræflar eru fjórir með gulhvíta frjóknappa. Ein fræva með dökkum stíl sem stendur upp úr blóminu. Hún verður að allstóru, fagurrauðu steinaldini (skollaberið) ef hún nær þroska. Skollaberin sjálf þroskast ekki fyrr en seint á haustin, oft í september. Oftast þroskast ekki nema 2-3 ber í hverjum sveip. Blómleggirnir eru með hvítum, aðlægum hárum. Laufblöðin eru gagnstæð, oddbaugótt eða egglaga, 1,5-2,5 sm á lengd, ydd í endann, virðast bogstrengjótt eins og hin hvítu háblöð.
Blómstrandi skollaber í grasgarðinum í Laugardal árið 1982.
Hér er sveipur skollabersins með hálfþroskuðum aldinum á Lágheiði við Reyki í Ólafsfirði í ágúst 2004.
Fullþroskuð skollaber í Ólafsfjarðarmúla haustið 1991