Rauðkollurinn er stórvaxin jurt sem öll er loðin. Blómin eru þétt saman í körfuleitri blómskipan á stöngulenda. Krónan er pípulaga neðst, breikkar fram með fjórum misstórum krónuflipum, 15-20 mm löng. Bikarinn er ummyndaður í 8 hærða bursta. Hann hefur fjóra langa fræfla með gulbrúnum frjóhirslum og eina frævu með einum stíl. Stöngulblöðin eru djúpt fjaðurflipótt eða fjaðurskipt, þau neðri með stórum endaflipa, stofnblöðin heilrend eða smátennt, lensulaga með alllöngum vængjuðum stilk. Stöngullinn er sívalur, gáraður, loðinn með einföldum hárum og kirtilhárum.