Skeggsandinn er marggreinótt, fjölær jurt með snögghærðum, jarðlægum stönglum. Blómin eru tvíkynja, 6-9 mm í þvermál. Krónublöðin eru hvít, ávöl í endann, lengri en bikarblöðin. Bikarblöðin eru 4-4,5 mm löng, oddmjó, þrí- til fimmtauga með mjóum himnufaldi. Fræflar eru 10, ein fræva með 3-5 stílum. Aldinið er egglaga eða nær hnöttótt tannhýði sem klofnar í 5-6 ræmur við þroskun. Fræin eru mörg, rauðbrún eða dökkbrún, tæpur millimetri í þvermál. Laufblöðin eru gagnstæð, heilrend, oddbaugótt eða breiðlensulaga, oddmjó, gljáandi, 2-5 mm á lengd
.
Skeggsandi líkist nokkuð ýmsum
öðrum hvítblóma tegundum af hjartagrasættinni. Blómin minna á
hnúskakrækil, eða jafnvel ýmsar nórur. Skeggsandinn þekkist frá þeim á
breiðari og styttri, gljáandi laufblöðum. Kræklar og nórur hafa að
jafnaði mjórri, striklaga blöð. Einnig má þekkja
skeggsandann á oftast sextenntu hýðisaldini.