Blómkörfur hóffífilsins eru 2-3 sm
í þvermál. Jaðarblómin eru gul með afar mjórri (um 1/2 mm) tungukrónu.
Hvirfilblómin eru pípukrýnd, með fimmtenntri, 3 mm breiðri krónu.
Fræflar eru 5, samgrónir í hring um stílinn, sem hefur klofið fræni.
Reifablöð körfunnar eru í einföldum, aðlægum kransi, græn til jaðranna,
en brúnfjólubláleit í oddinn og við miðtaugarnar. Stöngullinn er
lóhærður, þéttblöðóttur með aðlægum, breiðfættum, um 1,5 sm löngum,
brúnfjólubláum blöðum. Hann ber eina körfu snemma á vorin en stofnblöðin
vaxa síðar upp af jarðstönglum. Þau eru á löngum, 3-5 mm gildum stilk.
Blaðkan er hjartalaga eða nýrlaga, óreglulega tennt, 5-20 sm í þvermál,
hárlaus á efra borði, en neðra borð og blaðstilkar eru með hvítleitri hárló.
Hér sjást blöðkur hóffífilsins í Skátagilinu á Akureyri árið 1982.
Hér er blómstrandi hóffífill snemma vors í Elliðaárdal í Reykjavík vorið 1982.