Marstör
Carex ramenskii
er meðalstór stör
sem vex eingöngu á sjávarfitjum við sjó og í mýrum eða
flæðiengjum upp frá sjávarfitjum. Er oft í samfelldum, þéttum breiðum
þar sem sjór getur flætt langt inn á mýrar, og taka flæðimýrar með
gulstör oft við þegar landið hækkar og lengra dregur frá sjó.
Marstörin er einkum efst á flæðunum, þar sem sjór kemur aðeins að í
stórstreymi. Hún er útbreidd víða um land þar sem skilyrði eru fyrir
hendi, nema við suðurströndina. Marstörin líkist ofurlítið gulstör,
nema hún er minni, kvenöxin leggstyttri og ekki hangandi. Stráin með
öxunum eru að jafnaði styttri en blöðin. Að uppruna er talið að hún hafi
orðið til við kynblöndun flæðastarar og gulstarar. Utan Íslands vex hún
aðeins á útbreiðslusvæði gulstarar á Kyrrahafsströnd Norður-Ameríku og
Asíu. Náskyld íslenzku marstörinni er hins vegar Carex salina í
Evrópu, en hún er talin upprunnin við kynblöndun flæðastarar við
Carex paleacea.
Marstörin er meðalstór stör, með
tveimur til fjórum leggjuðum en nær uppréttum kvenöxum og einu til
tveimur karlöxum í toppinn. Axhlífar eru yddar, dökkbrúnar, með ljósari
miðtaug. Hulstrið er egglaga, trjónulaust, taugabert, eða með örstuttri
trjónu. Blöðin er 2-5 mm breið, ná oftast upp fyrir öxin.