Hlíðableikja er hávaxin, fjölær
jurt með upprétta stöngla sem bera blómin í löngum klösum á enda
hliðargreina. Blómin eru um 3-5 mm í þvermál. Krónublöðin eru gul, 4-5
mm á lengd, tungulaga, naglmjó, breiðust og ávöl að framan. Bikarblöðin
eru nokkru styttri, 2-3,5 mm, gulhvít eða gulgræn, snubbótt og gul í
oddinn, með nokkrum hárum í endann og mjóum himnufaldi. Fræflar eru sex,
ein fræva með stuttum, 0,5-1,5 mm löngum stíl, verður að 2-3 sm löngum
og 1-1,2 mm breiðum skálpi sem leggst upp að stönglinum við þroskun.
Stöngullinn er nokkuð grófur, gáraður, 3-6 mm gildur, hárlaus og þétt
settur stakstæðum blöðum. Laufblöðin eru mismunandi, þau neðri stilkuð,
fjöðruð eða fjaðurflipótt með stórum, egglaga og bogtenntum endableðli,
efri stöngulblöðin egglaga eða öfugegglaga og tennt en óskipt, líkjast
endableðli neðri blaðanna.
Myndin sýnir blómskipun hlíðableikju með uppréttum, aðlægum aldinum neðan til á klösunum.
Hér sjáum við lögun blaðanna neðan til á stönglinum. Báðar myndirnar eru teknar á Þórustöðum í Kaupangssveit, Eyjafirði í júní 2007.