Maríuvendlingur er einær jurt. Stönglarnir eru oftast greindir neðst, grannir, dökkir. Krónan er oftast fjórdeild, ljósbláleit eða fjólublá, um 1 sm á lengd, klofin 1/4 til 1/3 niður; hvítleitir þræðir eru í blómgininu. Bikarinn er ríflega helmingi styttri en krónan, klofinn nær niður í gegn, fliparnir oddbaugóttir til breiðlensulaga. Fræflar eru fjórir til fimm. Ein fræva, aldinið sívalt, aflangt hýði sem klofnar í toppinn við þroskun. Blöðin gagnstæð, oddbaugótt eða egglaga, oft blámenguð, hárlaus.