Hrísastör
Carex adelostoma
er afar sjaldgæf
stör á Íslandi eftir því sem bezt er vitað. Hún hefur einkum fundizt á
vestanverðu Norðurlandi frá Fljótum og allt vestur í Ísafjarðardjúp.
Erlendis hefur hún norðlæga útbreiðslu, algengust á Norðurlöndunum og
Kólaskaga. Hún
ber oftast 2-4 öx og aðgreinist meðal annars á því frá mörgum fjölextum
störum, að hún hefur kvenblóm ekki aðeins í neðri öxunum, heldur einnig
í toppaxinu. Karlblómin eru neðst í toppaxinu. Oft er henni ruglað saman
við afbrigðileg eintök stinnastarar eða mýrastarar sem geta líka haft
kvenblóm í toppaxinu. Frá þeim þekkist hrísastörin á því að kvenblómin
hafa þrískipt fræni, en þau eru tvískipt á stinna- og mýrastör.
Stöngullinn er heldur ekki eins þykkur og stinnur eins og á stinnastör.
Öxin (hulstrin) eru ljósari græn. Hrísastörin vex einkum í deiglendum,
þýfðum hrís- og lyngmóum.
Öx hrísastarar eru öll egglaga og
svipuð að stærð, karlblómin neðst í toppaxinu, neðsta stoðblaðið nær
ekki upp fyrir toppaxið. Axhlífar eru dökkbrúnar, miðstrengurinn
ljósari, gengur fram úr axhlífinni og myndar stuttan
odd. Hulstrin eru græn eða
móleit, smánöbbótt, trjónulaus, frænin þrjú. Stráin eru þrístrend,
blöðin 2-3,5 mm breið, styttri en stráið, neðstu blaðslíðrin eru niðri í
sverðinum, dökk-rauðbrún. Frá hinni náskyldu
klumbustör þekkist hrísastörin á stuttri
trjónu axhlífarinnar, sem ekki nær upp fyrir hulstrið.
Hrísastör á
Kaldrananeshjöllum í Bjarnarfirði 3. ágúst 2006
Hér sjást öx hrísastarar heldur nær með
dökkan bakgrunn.