Trjónubrúsi
Sparganium angustifolium
er fremur sjaldgæf
tegund af brúsakollsætt sem vex í alldjúpum tjörnum, vatnsfylltum
skurðum, ætíð í vatni. Blómin og aldinin eru í hnöttóttum kollum eins og
á mógrafabrúsa, sem er
miklu algengari og hefur blöð sem fljóta á vatnsyfirborðinu, en rísa
lítið upp. Blómkollar trjónubrúsans og efstu blöðin standa
oftast að hluta upp úr vatninu. Hann líkist mógrafabrúsa að öðru leyti
en því, að efstu blöðin undir blómskipaninni eru breiðari, blómkollarnir
eru stærri, og aldinin hafa stutta trjónu. Trjónubrúsinn finnst dreift
um landið í flestum landshlutum, en aðeins á láglendi.
Blöð trjónubrúsans eru flöt,
bandlaga, 6-50 sm á lengd, þau neðri lengri og 2-5 mm breið, þau efri
(stoðblöðin) styttri, 6-10 mm breið við fótinn. Blómin eru í hnöttóttum
kollum sem oft rísa örlítið upp frá yfirborðinu, karlblóm í þeim efstu,
en kvenblóm í 2-3 þeim neðri. Neðstu kollarnir eru oft á löngum stilk.
Blómhlífarblöðin eru himnukennd, brúnleit, lítið áberandi. Fræflar eru
þrír í hverju karlblómi. Frævur kvenkollanna verða að egglaga, 4-6 mm
löngu aldini með alllangri trjónu. Fullþroska kvenkollar eru 1-1,5 sm í
þvermál.