Rauðstör
Carex rufina
er fremur sjaldgæf
stör sem er algengust á hálendi landsins, bæði norðan og sunnan jökla,
og í snjóþungum strandfjöllum oftast í 400-800 m hæð. Hún vex oft
meðfram snjódældajöðrum og votlendis-jöðrum, meðfram tjörnum eða
uppþornuðum tjarnabotnum. Stráin og blöðin eru nokkuð jarðlæg,
halla út til hliðanna, og öxin eru oft á mjög stuttum leggjum, miklu
styttri en blöðin. Rauðstörin hefur hæst verið skráð í 930-950 m hæð í
Vonarskarði og í Gæsavötnum og í 850 m í Nýjadal við Tungnafellsjökul.
Hún er sjaldgæf á heimsvísu, utan Íslands á suðurhelmingi Grænlands og í
fjöllum Skandinavíu svo og á örfáum stöðum í Kanada.
Rauðstör er smávaxin, blaðmikil
fjallastör. Hún ber þrjú til fimm fremur þéttstæð, legglaus eða
stuttleggjuð öx, öll með kvenblómum; karlblómin aðeins neðst í
toppaxinu. Axhlífar eru fremur stuttar, dökkrauðbrúnar eða svartar, oft
með grænni miðtaug. Hulstrin eru græn, stutttrýnd; frænin eru tvö. Blöðin
eru í toppum, lengri en stráin, 1-2 mm breið, oft kjöluð,
þrístrend í oddinn.