Loðvíðirinn er runni sem oft er
hálfur til einn metri á hæð, en getur auðveldlega orðið 2-3 metrar við
góð skilyrði. Blöðin eru grágræn, kafloðin bæði að ofan og neðan,
oddbaugótt, breiðöfugegglaga eða egglaga,
fjaðurstrengjótt, 3-7(10) sm á lengd og 2-5 (7) sm á breidd, breiddin
oftast meira en helmingur af lengd blaðsins. Ársprotarnir eru einnig
kafloðnir, oftast með áberandi axlablöðum sem oft eru 0,5-1 (1,5) sm á
lengd; eldri sprotar með brúnum berki, stundum með hýjungi af hárum, eða
óloðnir. Blómin eru einkynja í reklum, kvenreklar 3-9 sm á lengd en
karlreklar nokkru styttri, blómgast á undan laufgun. Rekilhlífarnar eru
2-3 mm á lengd, kafloðnar með löngum, hvítgulum hárum, karlblómin með
tveim fræflum með gulum frjóhirzlum, kvenblómin með einni hárlausri,
gulleitri frævu sem verður að hárlausu gulu eða gulbrúnu aldini, 6-8 mm
á lengd. Aldinið klofnar í tvennt við fræþroskun og svifhár fræjanna
mynda mikinn ullarlagð sem umlykur rekilinn að lokum.
Blómstrandi karlreklar loðvíðis í Fífilgerði í Kaupangssveit árið 1963.
Blómstrandi kvenreklar loðvíðisins í Leifsstaðabrúnum í Kaupangssveit árið 1994
Hér eru kvenreklar loðvíðisins með fullþroskuðum fræjum sem eru reiðubúin til að berast á vængjum hvítrar fræullar (kotún) út í buskann.