Lítil, fjölær og hárlaus jurt
með fjórdeild blóm. Blómin smá, í klasa á
stöngulendanum. Krónublöð vantar, bikarblöðin fjögur, bleikfjólublá,
aflöng, 2-2,5 mm á lengd, breiðust um 0,6-0,8 mm neðst, oddmjó. Fræflar
áberandi, 4-5 mm langir og standa langt út úr blóminu, venjulega átta
talsins, stundum fleiri. Frjóþræðirnir fjólubláir, frjóhirzlurnar 2-2,5
mm á lengd, í fyrstu gulgrænar eða fjólubláar, verða síðar brúnar.
Frævur tvær til sex, oftast fjórar, með stóru og loðnu, hliðbeygðu
fræni. Aldinin eru útblásnar, langgáróttar hnetur sem hanga á slútandi
blómleggnum. Laufblöðin stofnstæð á grönnum stilk, fjöðruð, neðri
smáblöðin aftur fjöðruð, hin með skerðingum að framan, dökkgræn og
gljáandi að ofan, en ljósgræn á neðra borði, rendur niðurorpnar.
Stoðblöð blómleggjanna eru óskipt, 1,5-2,5 mm löng, fjólubláleit.
Brjóstagrasið er algeng jurt um
allt land, nær upp fyrir 1000 m í fjöllunum, vantar aðeins á þurrasta
hluta hálendisins. Hæsti fundarstaður er í 1220 m hæð í Litlahnjúk í
Svarfaðardal. Það vex í alls konar gróðurlendum, einkum móum, í brekkum,
giljum og grasgeirum.
Hér sjáum við blómstrandi brjóstagras. Fræflarnir sem hanga út úr blómunum eru mjög áberandi, enda er jurtin vindfrævuð.