Blóm krækiberjalyngsins eru örsmá,
lítið áberandi, þrídeild, umkringd nokkrum kringlóttum, rauðum háblöðum.
Krónublöðin eru dökkrauð, um 2-2,5 mm á lengd, spaðalaga,
útsveigð yfir bikarblöðin sem eru móleit, íhvolf og nær kringlótt.
Fræflarnir eru þrír í hverju blómi, 5-7 mm langir,
dökkblárauðir og standa langt út úr blóminu. Ein fræva sem verður að
berkenndu steinaldini með 6-9 litlum steinum utan um fræin. Aldinið er í
fyrstu grænt, verður síðan rautt og að lokum svart við þroskun,
5-8 mm í þvermál. Sprotarnir eru viðarkenndir og blaðlausir neðan
til, þéttblöðóttir í endann. Blöðin eru striklaga, snubbótt, 4-6
mm á lengd og um 1,5 mm á breidd, þykk og hol innan. Í
raun eru blaðrendurnar niðurorpnar og mynda hólk, og verður
áberandi hvít rönd á neðra borði þar sem blaðrendurnar koma saman.
Krækilyng með fullþroskuðum berjum í Jafnaskarði í Borgarfirði 11. september 1987.
Hér er krækilyng með útsprungnum blómum í Elliðaárdal vorið 1982. Fræflarnir eru mest áberandi þar sem þeir standa út úr blómunum.