Sigurskúfur
Chamerion angustifolium
er stórvaxin jurt
af eyrarrósarætt sem vex mest í klettum eða í bröttum, sólríkum brekkum.
Einnig kann sigurskúfurinn vel við sig í skóglendi ef hann kemst í það.
Þegar hann vex í þurrum, ófrjóum brekkum er hann venjulega dvergvaxinn
og blómstrar þar ekki, enda í eðli sínu nokkuð áburðarfrek jurt. Flestir
fundarstaðir sigurskúfs eru á láglendi eða í neðanverðum fjallshlíðum,
en einnig hefur hann fundizt á mið-hálendinu uppi í 640 m hæð.
Blóm sigurskúfsins eru um 2
sm í þvermál, mörg saman í löngum klasa. Krónublöðin eru rauð,
öfugegglaga. Bikarblöðin eru dökkrauð, lensulaga, loðin. Fræflar eru 8.
Frævan er undir blómhlífinni, löng, dúnhærð. Stöngullinn er
þéttblöðóttur; blöðin eru gagnstæð, lensulaga, heilrend eða
ógreinilega tennt, hárlaus, 4-12 sm á lengd og 1-2
sm á breidd.