Fjöruarfi er fjölær og hárlaus þykkblöðungur sem myndar uppsveigðar greinar út frá marggreindum jarðstönglum. Hver einstök planta getur þannig myndað kringlótta mottu sem getur orðið meir en metri í þvermál. Blómin eru af tveim gerðum, kvenblóm með ófrjóum fræflum, og karlblóm með ófrjórri frævu. Aðeins önnur gerðin kemur fyrir á hverri plöntu (sérbýli). Krónublöðin eru hvít, naglmjó með öfug-hjartalaga eða spaðalaga blöðku, á lengd við bikarblöðin eða lítið eitt styttri í karlblómum, en miklu styttri en bikarblöðin í kvenblómum. Bikarblöðin eru græn, egglaga og odddregin. Fræflar eru venjulega 10, áberandi með hvítar frjóhirzlur í karlblómum, en ófrjóir í kvenblómum. Frævan er afar smávaxin í karlblómum, en túttnar út og verður að stóru (6-10 mm), grænu, hnöttóttu hýðisaldini í kvenblómum með mörgum fræjum. Aldinin eru svo áberandi á vel þroskuðum kvenplöntum, að það hefur orðið tilefni til að nefna jurtina berjaarfa. Fræin eru brún, perulaga, 2,5-3 mm á lengd. Laufblöðin eru gagnstæð, stilklaus, mjög þykk og safarík, egglaga eða oddbaugótt, odddregin að framan.
Fjöruarfinn er nokkuð breytilegur í útliti. Plöntur frá norðlægum slóðum eru gjarnan grennri og renglulegri í vaxtarlagi með lengri greinliði, og mjórri og þynnri laufblöð, og minni fræ. Suðlægari plöntur eru þéttari og bústnari með breiðari og þykkari blöð og að jafnaði stærri fræ. Í samræmi við þetta hefur tegundinni verið skipt í subsp. diffusa í Norður-Skandinavíu og Íslandi, og subsp. peploides sem hefur suðlægari útbreiðslu. Aðeins sú fyrrnefnda hefur verið staðfest á Íslandi.
Fjöruarfinn er mjög algengur í
fjörum allt í kring um landið, vex bæði í sendnum og grýttum fjörum.
Hann finnst einnig alloft í sandi nokkuð frá sjó eins og t.d. á
Mýrdalssandi og Skeiðarársandi. Hann vex eingöngu á láglendi, en hefur
fundizt bæði á Skeiðarársandi og í Surtsey í um eða yfir 100 m hæð.
Fjöruarfi með karlblómum í Surtsey árið 1978.
Kvenblóm fjöruarfans í Álftanesfjöru 1982.
Berjaarfi með þroskuðum aldinum í Breiðuvík við Borgarfjörð eystra árið 1989.
Stórar mottur af fjöruarfa eins og þær birtust í Surtsey árið 1998.