Finnungsstör ber oftast aðeins eitt
stutt ax, sjaldnar tvö. Karlblóm eru efst í axinu. Axhlífarnar eru
ljósbrúnar, himnukenndar, með tenntar rendur; hulstrið ljósbrúnt, mjókkar jafnt upp í
trjónu. Frænin eru tvö. Stráin eru sívöl,
blöðin þráðmjó, sívöl neðan
til og grópuð, þrístrend í endann, oft á hæð við eða hærri en axið.
Finnungsstörin
vex í toppum með þéttstæðum blaðslíðrum og oft bogsveigðum stráum og
blöðum.
Aðalheimkynni finnungsstarar
hér á landi er
landræna svæðið norðan jökla. Samkvæmt útbreiðslukortum virðist mega
greina þrjú meginsvæði: Háfjöllin báðum megin Eyjafjarðar þar sem hún
vex einkum á fjallstoppum eða uppi á veðurbörðum hryggjum, og svo
hálendið suður við jökla frá Austari Jökulsá austur fyrir
Skjálfandafljót, og að lokum hálendið umhverfis Herðubreið og Möðrudal
inn í Krepputungu, Kverkfjöll og austur í Brúardali. Á hálendinu getur
hún verið bæði á sléttum, stöðugum melum, eða uppi á fjallshryggjum.
Tegundin leynist vel, svipar fljótt á litið til þursaskeggs þar sem hún
er óblómguð, og fáir sem þekkja hana. Því gætu auðveldlega átt eftir að
koma fram fleiri fundarstaðir sem tengja þessi svæði saman. Samtals
hefur finnungsstörin fundizt á um 50 stöðum í 35 10 x 10 km reitum
Finnungsstör á auðnum Hofsafréttar .
Hér sést finnungsstörin nær, báðar myndirnar eru teknar uppi á hæð sunnan við Hraunlækjardrög á Hofsafrétti 10. ágúst 1999