Bjarnarkló
Heracleum mantegazzianum
er afar stórvaxin
planta af sveipjurtaætt, allmiklu stærri en ætihvönn. Hún er náskyld
tröllakló, en þær voru báðar fluttar til landsins á
síðustu öld, og hafa verið nokkuð vinsælar sem skrautjurtir í görðum nú
í seinni tíð. Varast ber þó að rækta þessar tegundir, því þær þroska
auðveldlega fræ og dreifa sér af sjálfsdáðum. Fyrr en varir geta þær
orðið alvarlegt illgresi sem erfitt er að uppræta líkt og
skógarkerfilinn. Þær hafa nú þegar náð að dreifast nokkuð frá ræktun á
nokkrum stöðum. Í Danmörku, Noregi og fleiri nágrannalöndum okkar hafa
menn misst tökin á þessum plöntum með alvarlegum afleiðingum. Báðar eru
eitraðar og getur hörund brunnið undan þeim í sólarljósi, og er því afar
hvimleitt ef þær ná fótfestu á svæðum þar sem börn leika sér.
Bjarnarklóin mun vera byrjuð að dreifast út á nokkrum stöðum á
Suðurlandi, en lítið er vitað um útbreiðslu hennar annars staðar, enda
er fremur nýlega farið að aðgreina bjarnarkló frá tröllakló. Þessar tegundir eru
mjög líkar, þekkjast helzt í sundur á aldininum, hæringu, og skerðingu blaðanna.
Hæð bjarnarklóar er
2,2 – 3,2 metrar, oft með sterka, beiska lykt. Hefur venjulega einn, lítið
eitt loðinn stöngul með víðu miðholi. Neðri hluti stöngulsins getur verið
allt að 50 – 100 mm í þvermál. Stöngullinn hefur fjólubláa eða dumbrauða
flekki og er settur stinnum hárum neðan til,
en mýkri hárum ofar. Hárin eru glær, krulluð og standa 45 gráður
út frá stönglinum. Blöðin eru þrífingruð eða fjöðruð, gróftennt,
með fjólublá slíður, stilkurinn venjulega 40 – 90 cm langur. Blaðröndin
er tvítennt eða tvísagtennt með langyddum tönnum. Endar smáblaðanna eru
mjó- og langyddir. Heil, samsett blöð geta verið allt að 3 metra löng.
Sveipirnir eru venjulega flatir eða lítið eitt kúptir, 9-15 sm háir og
25-60 sm breiðir. Aldinin eru öfugegglaga með fjórum dökkum rákum sem
breikka neðst, lítið eitt loðin með stuttum kirtilhárum (0,5 – 1 mm).
Útbreiðslukortið hér að neðan sýnir sameiginlega útbreiðslu bjarnarklóar
og tröllaklóar, þar sem ekki hefur alltaf verið greint á milli þessara
tegunda.