er slæðingur sem
borizt hefur hingað frá útlöndum. Hans er fyrst getið í nágrenni
Akureyrar á 3. áratug síðustu aldar, en er nú löngu orðinn ílendur. Hann
er farinn að dreifa sér ört út á eigin spýtur. Hann sækir mjög í
að mynda samfelldar breiður sem ekkert fær stöðvað. Skepnur bíta
hann lítið, og hestar alls ekki. Hann vex einnig vel í skugga og þekur
stundum skógarbotna. Skógarkerfill líkist nokkuð
spánarkerfli, en
vantar anísbragðið af blaðstilkunum og hefur mun minni og fremur slétt
aldini. Nú á síðustu árum hafa menn áhyggjur af ágengni
skógarkerfilsins. Einkum leggur hann undir sig frjósamt land sem hefur
verið auðgað af köfnunarefni, svo sem gömul tún og lúpínubreiður.
Blóm skógarkerfilsins eru oftast
8-16 saman í smásveipum sem aftur skipa sér saman í stórsveipi. Krónan
er hvít með gulgrænleitum blæ, 2-7 mm í þvermál.
Krónublöðin eru öfughjartalaga eða öfugegglaga, misstór. Bikarblöð
vantar. Fræflar eru oftast fimm, vantar stundum suma eða alla. Ein
tvíkleyf fræva með stuttum stílum er í blómunum. Aldinið er móleitt eða dökk brúnt,
gljáandi, 5-8 mm á lengd, nær sívalt eða kantað, en
rifjalaust. Spánarkerfill þekkist hins vegar frá honum á stærri
og skarprifjuðum aldinum. Smáreifablöð eru grænleit eða fjólubláleit, randhærð; stórreifar
vantar. Blöðin eru tví- til þríhálffjöðruð, nær hárlaus nema á jöðrum og
neðra borði, langstilkuð. Stilkur og stöngull eru gáraðir, lítt eða ekki
loðnir.
Skógarkerfill er nú víða orðið hið mesta illgresi, og eru margir að
berjast við að hefta útbreiðslu hans eða reyna að útrýma honum. Því er
ekki úr vegi að skoða svolítið lifnaðarhætti hans, og sjá hvernig hann
bregst við ýmsum uppátækjum mannsins sem reynir að losna við hann.
Skógarkerfillinn er talinn fjölær, en samkvæmt minni reynslu er
hann fremur fáær, sem sjá má á því að þegar hann er rifinn upp með rótum
má oft sjá fúinn stöngul móðurplöntunnar í miðju, en fjölda ungplantna
umhverfis. Sem betur fer myndar kerfillinn ekki skriðular renglur eins
og sumar plöntur gera, en út úr rótarhálsinum vaxa oft örstuttar greinar
sem mynda urmul af ungplöntum sem raða sér utan um rótarhálsinn, eins og
sjá má á einni myndinni hér til hægri. Einnig framleiðir hann mikið af
fræjum sem sá sér um næsta nágrenni (2).
Tvær aðferðir hafa helzt verið reyndar til að
stemma stigu við kerflinum. Annars vegar að stinga hann upp með rótum og
eyðileggja plönturnar. Hins vegar að úða á hann eitri, einkum roundup
eða clinic. Auðvelt er að uppræta hann í byrjun með hvorri
aðferðinni sem er, en þegar hann hefur myndað samfelldar breiður á
stórum svæðum er það nánast ógerningur nema með mikilli og samfelldri
eftirfylgni.
Af fræi kerfilsins myndast á fyrsta ári lítil, margskipt blöð á
löngum stilkum (5). Niður úr plöntunni myndast stólparót, líkt og lítil
gulrót. Á næsta ári verða blöðin töluvert stærri, og á öðru eða þriðja
ári nær plantan að blómstra. Á því stigi er auðvelt að stinga hana upp
með einni spaðastungu, hreinsa utan af rótunum moldina og leggja
plöntuna til þerris svo hún visni. Við þessu bregst plantan með því að
draga næringu úr rótum og stönglum og leggur alla orku í að þroska
fræin. Til að koma í veg fyrir það er gott að klippa blómin af
stönglinum eftir að hún hefur verið rifin upp. Ef um ungplöntu var að
ræða er aðeins ein forðarót, en eldri plöntur geta þegar verið
umkringdar ungplöntum með sjálfstæðum smárótum utan á rótarhálsinum (4).
Þær visna ásamt móðurplöntunni við þessa aðgerð. Ef móðurplantan var
nokkurra ára gömul, gæti hún hafa verið búin að sá sér út í næsta
nágrenni, og þarf því að gæta vel að því hvort ungar fræplöntur kunni að
leynast umhverfis kerfilinn í meiri fjarlægð, því þá þarf að stinga þær
upp líka.
Ef við úðum eitri á blöð þessarar sömu kerfilsplöntu kemur hún til
með að drepast ef um ungplöntu var að ræða. Ef hún hins vegar hefur
myndað þyrpingu af smáafkæmum utan á rótarhálsinum, gætu þær sloppið við
eitrið vegna þess hvað blöð þeirra voru lítið vaxin. Þær koma þá til með
að vaxa upp síðar um sumarið eftir að móðurplantan hefur drepizt. Ef
plantan var búin að sá sér, og nokkrar smáplöntur hafa verið í
nágrenninu eru nokkrar líkar á að þær sleppi líka við eitrið, vegna þess
að þær voru lítt sýnilegar þegar eitrað var.
Því er það gjarnan þannig þegar eitrað er á nokkra breiðu
kerfilsins, að síðar um sumarið eða á næsta ári vaxa upp allmargar nýjar
plöntur á miðju því svæði sem eitrað var, það eru ungar rótarhálsplöntur
sem sluppu undan eitrinu. Á kraga umhverfis eitraða blettinn vaxa svo
upp nýjar fræplöntur sem voru skammt á veg komnar þegar eitrunin átti
sér stað. Því er óhjákvæmilegt ef árangur á að verða af eitrun, að fara
yfir sama svæðið aftur síðar á sumrinu og næstu árin á eftir. Ef það er
vanrækt verður breiðan enn þá þéttari og stærri eftir 2-3 ár.
Sá ókostur fylgir einnig eitrunaraðferðinni, að
grasið drepst algjörlega, og er mjög lengi að nema land aftur (6).
Því losnar kerfillinn við samkeppni frá grasinu og á auðveldara með að
loka svæðinu aftur og mynda samfelldar kerfilsbreiður. Njóli,
hlíðableikja og ýmsar aðrar tvíkímblaða jurtir eru einnig mun fljótari á
vettvang en grasið.
Á túnum og inni á lóðum er skógarkerfillinn
ótrúlega lífseigur. Hann sést að vísu lítið með tíðum slætti, þar sem
hann nær ekki að blómgast. En blöð hans leynast í grasinu og vaxa
sífellt upp af sömu rótinni árum saman. Strax þegar
slátturinn er vanræktur vex hann upp og blómstrar, ef ekki sama
árið þá á því næsta.
Sums staðar vex spánarkerfill innan um skógarkerfilinn. Hann
hefur miklu djúpstæðari og fastari rætur, sem nást illa upp með einni
spaðastungu.