Mýraertur
Lathyrus palustris
eru af ertublómaætt
og minna nokkuð á umfeðming, en blöðin hafa aðeins 2-3 pör af striklaga
smáblöðum, og klasarnir eru blómfáir. Blómin eru fjólublá, heldur
rauðleitari en á umfeðmingi. Framan á blöðunum eru vafþræðir sem jurtin
notar til að festa sig við allan þann gróður sem vex í nágrenni hennar.
Mýraerturnar eru fremur sjaldgæfar, finnast þó í öllum
landshlutum nema ófundnar á vestanverðu Norðurlandi, miðhálendinu, og á
suðaustanverðu landinu frá Mýrdalssandi að Stöðvarfirði. Erfitt er að
átta sig á hvað það er helzt sem takmarkar útbreiðslu mýraertna. Svo
virðist þó að þær eigi erfitt uppdráttar þar sem beit er mikil. Lengi
vel fannst jurtin hvergi öðru vísi en óblómguð (Stefán Stefánsson 1901,
Std. Std. 1930, Ingimar Óskarsson 1944). Á mörgum
fundarstaðanna er jurtin smávaxin og blómstrar ekki. Á síðari árum hefur
hún þó oft fundizt stórvaxin og ríkulega blómstrandi þar sem land hefur
verið beitarfriðað í seinni tíð, t.d. í árhólmum Eyjafjarðarár.
Mýraertur vaxa í graslendi, deiglendi eða kjarri.
Blóm mýraertna standa fá saman í
langleggjuðum, stuttum klösum. Krónan er 1-1,5 sm á lengd, fáninn
dökkfjólublár, kjölurinn ljósari. Bikarinn er 5-tenntur, 7-8 mm, klofinn
nær niður til miðs, lítið eitt hærður. Fræflar
eru 10, þar af 9 samgrónir í pípu neðan til en einn laus. Ein fræva.
Blöðin eru fjöðruð, með 1-3 pör af striklaga eða langlensulaga
smáblöðum; smáblöðin eru broddydd, lítið eitt hærð á neðra borði, 2-4,5
sm löng en 2-6 mm á breidd; endasmáblöðin eru ummynduð í vafþræði.
Stöngullinn er gáraður, lítið eitt hærður.