Flóra Íslands - Blómplöntur
Eggtvíblaðka
Listera ovata
er sjaldgæf jurt af
brönugrasaætt, og er hún friðuð. Hún vex oftast í
skóglendi eða kjarri, stundum í lyng- og blómlendisbrekkum, en stöku
sinnum í grasríku landi, einkum þá í brekkum eða gilkverkum
og er sjaldgæf þótt hana megi finna í flestum landshlutum nema
mið-hálendinu. Sjaldgæfust er hún á Norð-austurlandi og
Austfjörðum. Einna flestir fundarstaðir eru á Vesturlandi og við
utanverðan Eyjafjörð. Nærri lætur að í dag séu kunnir um eða tæpir 40
fundarstaðir, en á mörgum þeirra er hún afar strjál, allt niður í það að
vera aðeins einn toppur sem vaxið hefur á sama stað nær óbreyttur í
áratugi. Eggtvíblaðkan vex einkum á láglendi, nær þó upp fyrir 200 m hæð
á sumum stöðum, t.d. í Stóragili við Eyrarland, Eyf., og hugsanlega í
Miðfellsbrekkum í Morsárdal, og í Göngudal við Njarðvík eystra. Hún er friðuð samkvæmt
náttúruverndarlögum, enda er hvergi mikið af henni.
Eggtvíblaðkan er hávaxin jurt með einum, 5-8
sm löngum, gisnum blómklasa efst á stönglinum. Blómin eru með 5
uppréttum, grænleitum, 3-4 mm löngum blómhlífarblöðum, og
6-10 mm langri, ljósmóleitri neðri vör, klofinni í tvennt;
fliparnir eru gleiðir. Frævan myndar stuttan knapp undir blómhlífinni.
Blómleggurinn og stöngullinn eru kirtilhærðir. Tvö heilrend, egglaga eða
sporbaugótt, bogstrengjótt laufblöð eru neðan til á stönglinum,
6-12 sm löng og 2,5-6 sm breið.
Eggtvíblöðku er líklega fyrst getið í plöntulista frá Hooker um 1811, og
í ýmsum listum síðan. Stefán Stefánsson tók hana þó ekki upp í fyrstu
útgáfu af Flóru Íslands, líklega af því að engin eintök hafa verið til
þá í íslenzkum söfnum, og hann ekki séð hana sjálfur. Hann getur hennar
fyrst í flóruaukum sínum árið 1919 og segir þar frá þrem fundarstöðum á
Vesturlandi, Hvammi í Hvammssveit, Ólafsdal og Þverfelli í Saurbæ og
einum af Norðurlandi, Þóroddsstaðafjalli í Köldukinn. Tæplega leikur þó
vafi á því, að eggtvíblaðka hefur verið hér til í skógunum þegar
landnámsmenn komu að landi.
Hér er eggtvíblaðka snemma að vori, búin að
breiða úr blöðunum, en blómaxið er óþroskað. Myndin er tekin í
Stóragili við Eyrarland í Kaupangssveit sumarið 2003.
Hér sjáum við útsprungin blóm
eggtvíblöðkunnar efst á stönglinum. Myndin er
tekin í Búðahrauni á Snæfellsnesi árið 1985