Músareyrað er fjölær jurt með
jarðlæga blaðsprota og upprétta blómstöngla. Stönglarnir eru venjulega
þétt settir löngum, hvítum ullhárum. Blómin eru fimmdeild, 1,5-2 sm í
þvermál. Krónublöðin eru hvít, klofin í endann, oft nær tvöfalt lengri
en bikarblöðin. Bikarblöðin eru 5-9 mm löng, lensulaga, oddmjó, með
breiðum himnufaldi, loðin. Fræflar eru 10, ein fræva oftast með 5 eða 10
stílum. Aldinið er tannhýði sem opnast með 10 tönnum. Laufblöðin eru
gagnstæð, 0,6-1,8 sm löng og 3-6 mm breið, óstilkuð, oddbaugótt eða
lensulaga, oftast kafloðin hvítum, löngum hárum.
Músareyra í Hvalfirði árið 1982.
Nærmynd af blómi músareyrans í Leifsstaðabrúnum í Kaupangssveit 21. júní 2005.