Geithvönn
Angelica sylvestris
er allvíða um land,
en fer þó lítið inn á hálendið. Hún vex einkum í skóglendi, á bökkum og
engjum meðfram stórum ám, og í blómsælum giljum og brekkum
og meðfram hleðslugörðum í flæðimýrum, ætíð í vel grónu
landi. Hún er heldur minni en ætihvönnin, hefur fíngerðari
blöð og flatari blómsveipi. Stönglar og blöð eru oft bládöggvuð.
Geithvönnin vex einkum á láglendi, hæstu fundarstaðir eru í 500 m hjá
Laugum við Snæfell (Steindór Steindórsson), og í 420 m í Karlsdrætti við
Hvítárvatn (Steindór). Geithvönnin er miklu meiri
láglendisjurt en ætihvönnin, en er nokkuð útbreidd um mestallt landið.
Hún er fremur hitakær og vantar því á sumum útskögum eins og
Skaga og Melrakkasléttu, og hún vex aðeins í suðurhlíðum í hléi
Jökulfjarða, en ekki norðan á Horn-ströndum á móti hafi.
Hana vantar að mestu á hálendinu, nema í skjóli Langjökuls við
Karlsdrátt og Hvítárvatn.
Blóm geithvannar eru 3-5 mm í
þvermál, mörg saman í smásveipum sem aftur skipa sér
fjölmargir saman í stórsveipi, 10-15 sm í þvermál. Krónan er fimmdeild.
Krónublöðin eru oddbaugótt eða lensulaga, hvít eða örlítið bleikleit.
Fræflar eru 5. Frævan er skipt í tvennt, með tveim stílum, verður að
tvíkleyfu aldini. Reifablöð eru striklaga. Sveipleggir eru gáraðir,
snögghærðir. Blöðin eru tví- til þrífjöðruð, blaðstilkurinn er djúpt
grópaður að ofan, smáblöðin tennt og blaðslíðrin dumbrauð.