Blóm túnfífilsins standa í stórum, þéttum körfum sem eru stakar efst á ógreindum, blaðlausum, víðum stöngli. Körfurnar eru 3-5 sm í þvermál. Reifablöðin eru dökkgræn, hárlaus, oft með ljósum eða glærum himnufaldi, þau efstu sveigð að körfunni, en þau neðri oft niðursveigð. Blómin eru öll tungukrýnd, tungan 2-3 mm á breidd, fagurgul með fimm tönnum í oddinn. Fræflar eru 5 í hverju blómi, samvaxnir í rör utan um stílinn sem hefur klofið fræni. Karfan lokast eftir blómgun á meðan fræin þroskast, og er orðin að biðukollu þegar hún opnast aftur. Aldinin (fræin) eru broddótt ofan til, um 2,5-5 mm á lengd, með hvítan svifkrans á stilk sem er tvöfalt til þrefalt lengri en fræið. Stöngullinn er ýmist ofurlítið lóhærður eða hárlaus, með víðu miðholi, 3-6 mm á breidd. Blöðin eru öll stofnstæð, 15-30 sm löng, afar breytileg að gerð, oftast fjaðurflipótt eða skipt, með óreglulega gróftennta blaðhluta, stundum nær heilrend. Bæði stöngull og blöð hafa hvítan mjólkursafa.
Túnfífill á Akureyri árið 1963.
Myndin af fífilkörfunni er tekin á Arnarhóli í Kaupangssveit 5. júlí 2006.
Biðukolla með nokkrum fræjum, tekin á Hesteyri, 4. júlí 2004.