Vatnamyntan er skriðul,
lyktarsterk, fjölær jurt með uppsveigðum, blómstrandi greinum.
Blómskipanir mynda þétta, fjólubláa hnappa efst á stöngli. Blómin eru
5-7 mm á lengd, krónan fjórflipuð, lítið eitt loðin. Bikarinn er
trektlaga, 3-4 mm á lengd, 5-tenntur, með oddmjóum sepum, hærður.
Stöngullinn er ferstrendur með hvítum, aðlægum hárum. Blöðin eru
gagnstæð, breiðegglaga eða hjartalaga, stilkuð, tennt, hærð; ýmist græn
með rauðleitum strengjum eða öll meir eða minna rauðmenguð.
Hér er vatnamyntan seint í júní sumarið 2003 á Reykhólum, en þá var hún ekki farin að blómstra.
Hér er vatnamyntan blómstruð 2. ágúst 2006 á Reykjanesi við Djúp.
Vatnamynta á Reykjanesi við Djúp.