Brenninetlan er allhávaxin og fjölær jurt.
Blómin eru örsmá, einkynja í sérbýli á mismunandi einstaklingum, í
samsettum, aflöngum blómskipunum sem oft hanga niður úr blaðöxlunum.
Stöngullinn er djúpgáróttur, öll plantan alsett grófum brennihárum. Blöðin
eru gagnstæð, gróftennt og stilkuð. Blaðkan er egglaga, langhjartalaga eða
lensulaga, ýmist með ávölum, þverum eða hjartalega grunni, dregin fram í
odd, 5-10 sm löng og 1,5-6 sm breið. Blómhlífin eru fjórdeild, grágræn á
litinn. Ein fræva er í blómum kvenplantnanna, en fjórir fræflar í
karlblómunum.
Brenninetlan er auðþekkt frá öllum
öðrum íslenskum jurtum. Frá smánetlu þekkist hún best á stórum,
odddregnum blöðum. Auk þess er hún miklu stærri, oftast vel yfir 50 sm á
hæð. Tvær deilitegundir af brenninetlu vaxa í Skandinavíu, subsp.
dioica og subsp. sondenii. Aðeins sú fyrrnefnda hefur fundist
hér á landi.
Brenninetlan er án efa aðflutt af
manna völdum snemma á öldum, enda hafa leifar af henni fundist í gömlum
rústum á Bergþórshvoli. Hún hefur verið ræktuð til lækninga og
oft verið flutt á
milli garða (Helgi Jónasson 1952), en dreifist lítið af sjálfsdáðum hér
á landi. Stafar það meðal annars af því, að oft flytja menn aðeins annað
kynið, og dæmi eru um t.d. á Fljótsdalshéraði, að þar sáust aðeins
karlplöntur. Brenninetlan hefur skriðula jarðstöngla og myndar því
nokkuð samfelldar, þéttar breiður, einkum í frjóum, áburðarríkum
jarðvegi.
Lítið eitt hefur brenninetlan verið
nytjuð, svo sem í gerði umhverfis matjurtagarða (Std. 1962),
einnig til að
vinna bastþræði (Björn Halldórsson 1783), eða til lækninga.
Hér sést gerði myndað af brenninetlu. Myndin er tekin af Helga Hallgrímssyni.
Hér sést brenninetla í návígi. Myndin er tekin í Lystigarði Akureyrar árið 1982.