Lyngbúi
Ajuga pyramidalis
er mjög sjaldgæf
jurt af varablómaætt sem aðeins finnst norðarlega á Austfjörðum á
svæðinu frá Unaósi að Norðfirði, einkum í þeim hlíðum sem vita mót
suðri. Ungir sprotar lyngbúans hafa sérkennilega ferstrenda
pyramidalögun áður en þeir teygja úr sér. Hann vex einkum í
lyngdældum, grasdældum eða grasbrekkum, stundum undir klettum. Hæsti
fundarstaður lyngbúans er í 350-400 m undir Nípukolli í Norðfirði
(Hjörleifur Guttormsson). Lyngbúinn er friðaður samkvæmt
náttúruverndarlögum.
Blóm lyngbúans eru blá, varaskipt.
Krónupípan er 10-15 mm löng, neðri vörin fjórflipuð, efri
vörin örstutt, blómginið loðið. Fræflarnir eru fjórir, frævan með einum
stíl. Stoðblöð blómanna eru miklu lengri (2-3 sm) en
blómin, tungulaga, loðin, mjög þétt og krossgagnstæð, svo sprotinn
virðist ferstrendur. Stöngullinn er kafloðinn, laufblöðin 10-15
sm á lengd, nær heilrend, mjókka jafnt niður að stilknum, hærð.
Lyngbúinn finnst allvíða á svæðinu frá Njarðvík eystra
suður í Norð-fjörð. Líklega er hann einna algengastur í Njarðvík þar sem
hann finnst hér og þar í neðanverðum hlíðum frá Geldingafelli í
Dyrfjalladal út í Skjaldardal. Í Borgarfirði hefur hann fundizt á einum
fimm stöðum en í Loðmundarfirði er lyngbúinn aðeins fundinn yzt við
fjörðinn að norðan á Nesi, bæði í Sauðhöfðahlíðum fyrir ofan Nes (Helgi
Valtýsson 1945), í Nesárgili og utan í Neshálsi (Ingólfur Davíðsson
1940). Einn fundarstaður er þekktur í Brúnavík og annar í Kjólsvík
(Hjörleifur Guttormsson). Í Mjóafirði hefur hann aðeins fundizt ofan við
Brekku, í Seyðisfirði á einum stað uppi í hlíðum skammt utan við
Hádegisá, en það er fyrsti fundarstaður hans hér á landi frá árinu 1904.
Að lokum er hann á nokkrum stöðum í Norðfirði í hlíðinni ofan og utan
við Neskaupstað.
Lyngbúi í hlíðum
Kerlingarfjalls, Njarðvík eystra þann 10. júlí árið 2008,
Hér sjást blóm
lyngbúans betur, í Nesárgili í Loðmundarfirði í ágúst 2001. Lítið
ber á þeim innan um fjólublá laufblöðin.