Dvergsteinbrjótur er smávaxin, fjölær fjallajurt. Blómin eru nokkur saman í hnapp efst á stönglinum, fimmdeild, um 5-6 mm í þvermál, hvít eða lítið eitt bleikleit. Bikarinn er klofinn tæplega miðja leið, grænn eða rauður. Fræflar eru 10, frævan klofin í toppinn, frænin krókbeygð út til hliðar og niður. Stöngullinn er hærður, blaðlaus að undanskildum stoðblöðum blómanna. Blöðin eru í stofnhvirfingu, kringluleit, stutt-stilkuð eða stilklaus, blaðkan gróftennt, 4-8(10) mm í þvermál.
Hér sést dvergsteinbrjótur einmana uppi á háfjalli. Myndina tók af Helgi Hallgrímsson.
Hér sést dvergsteinbrjótur í návígi uppi á Gilsbakkafjalli í Skagafirði 3. ágúst 2008.