Blöð tjarnalauksins eru í þéttum
stofnhvirfingum, striklaga, sívöl, 5-10 sm löng og 1-2 mm á breidd.
Jurtin myndar oft rótskeytar, bogsveigðar renglur. Blómin eru einkynja í
sambýli. Karlblómin standa á löngum leggjum út úr blaðhvirfingunni,
fjórdeild. Bikarblöðin eru græn eða rauðstrípuð, himnurend, ydd, 4-5 mm
á lengd. Krónublöðin eru nokkru lengri, oddmjó, himnukennd. Fræflar
karlblómanna eru 1-2 sm á lengd og standa langt út úr blóminu.
Frjóhirslur eru stórar, 2-3 mm á lengd. Kvenblómin eru óleggjuð, í öxlum
stoðblaða við fót karlblómanna. Ein fræva með löngum stíl. Aldinið er
einfræja, 2-2,5 mm löng hneta.
Blómstrandi tjarnalaukur við Ástjörn í Hafnarfirði árið 1985. Af blómunum má helzt greina hina löngu fræfla sem standa upp úr karlblómunum vinstra megin við miðja mynd.