minnir ofurlítið á
gullmuru, hefur handskipt blöð eins og hún, en fjórdeild gul blóm,
og er grennlulegri í vaxtarlagi. Engjamuran er mjög sjaldgæf á Íslandi,
hefur aðeins fundizt á einum stað villt. Hún vex við jarðhita við
Kirkjuból í Reykjarfirði nyrðri á Ströndum. Líklegt er að hún hafi verið
flutt þangað af manna völdum fyrr á öldum. Annars staðar hefur
engjamuran aðeins fundizt sem nýlegur, óstöðugur slæðingur.
Engjamuran er fremur smávaxin jurt með þykkan
jarðstöngul. Blómin eru fjórdeild, 12-15 mm í þvermál, krónublöðin
eru gul, oft með dökkgulum bletti neðst við nöglina,
aðeins lengri en bikarblöðin sem eru þríhyrnd, oddmjó. Utanbikarflipar
eru lensulaga, allur bikarinn hærður. Allmargir fræflar og frævur.
Laufblöðin eru stilklaus, þrískipt, smáblöðin gróftennt eða sepótt að
framan, strýhærð, axlablöðin stór og gróftennt framan. Þau koma oft
fyrir eins og hluti af blöðkunni sem þá sýnist fimmskipt. Stöngullinn er
sívalur, strýhærður.
Hér höfum við svindlað lítið eitt, því
myndin af engjamuru er tekin í Þýzkalandi árið 2005.