Blóm þyrnirósarinnar eru 3-5 sm í
þvermál. Krónublöðin eru hvít, 1,5-2 sm löng. Bikarfliparnir
eru mjóir, odddregnir, tenntir, 1-1,5 sm á lengd. Margir gulir
fræflar. Nokkrar loðnar frævur eru í miðju blóminu. Aldinið er svokallað
hjúpaldin, hnöttótt staup, blárautt að lit, 7-8 mm í
þvermál, holt innan með smáum hnetum í botninum. Blöðin eru fjöðruð,
oftast með þremur til fjórum blaðpörum og endasmáblaði; smáblöðin
eru sporbaugótt, reglulega tennt, 1-2 sm á lengd. Stöngullinn er þétt settur
afar misstórum þyrnum, frá 1 mm upp í 8 mm á lengd; smáþyrnar þéttir,
gisstæðari grófir þyrnar á milli.
Þyrnirósarbreiða í Arnstapahlíð við Ísafjarðardjúp í júlíbyrjun 2003.
Hér sést rósin í fullum blóma í Arnstapahlíð við Ísafjörð, 2. ágúst 2006.
Nærmynd af blómi þyrnirósarinnar á sama stað.