Smánetlan er einær, fremur
lágvaxin jurt. Blómin eru örsmá, einkynja, en bæði kynin sitja saman í
samsettum, hnúskóttum, grænleitum blómskipunum í blaðöxlunum.
Stöngullinn er uppréttur, gáraður, með strjálum, grófum brennihárum.
Blöðin eru gagnstæð á alllöngum stilk, blaðkan egglaga eða nær
kringlótt, 1,5-3 sm á lengd, mjög gróftennt með löngum tönnum.
Blómhlífarblöðin eru fjögur, græn, kvenblómin með einni frævu en
karlblómin með fjórum fræflum. Frjóhirzlurnar eru gulgrænar, stórar og
fylla alveg út í blómið.
Smánetlan er auðþekkt frá öllum
öðrum tegundum landsins. Hún er miklu smávaxnari en brenninetla, ætíð
innan við 50 sm á hæð, blöðin eru minni og ávöl fyrir endann. Hún er
ennþá gróftenntari en brenninetla, blaðtennurnar hlutfallslega lengri og
mjórri.
Svo virðist sem smánetlan sé gamall
slæðingur í landinu, fannst áður einkum við hafnir og í fjörum, einnig
oft í kartöflugörðum sem staðsettir voru nálægt sjó. Hún vex einkum í
áburðarríkum jarðvegi, í heimilisgörðum, við fjóshauga og hænsnahús, og
innan um sjórekinn þara. Smánetlan er fremur fágæt, útbreiðsla hennar
afar óstöðug (Std. 1962 bls. 127) enda einær og því háð þroskun og
dreifingu fræjanna frá ári til árs. Hún virðist vera á undanhaldi, þar
sem flestar heimildir um hana eru frá nítjándu öld og fyrri hluta 20.
aldar en mun færri frá síðustu áratugum. Hún vex aðeins á láglendi, hæst
fundin í Mývatnssveit í um 270 m.
Smánetla á Ásláksstöðum á Vatnsleysuströnd 17. ágúst 2008. Ef myndin er stækkuð með því að smella á hana, sjást brennihárin á stönglinum mjög greinilega.