Broddastör er smávaxin jurt af stararætt, með stuttu, endastæðu axi. Axið er með áberandi broddum sem vísa upp meðan störin er að þroskast, en síðan niður. Kvenaxhlífarnar eru breiðar, sljóyddar að framan, egglaga. Frænin eru þrjú. Hulstrið er langt (6-10 mm) og mjótt, sívalt, mjókkar jafnt upp. Við hlið frænanna vex upp úr hulstrinu grænn broddur sem ásamt því beinist síðar niður. Verður axið því við þroskun með áberandi niðurvísandi broddum. Stráið er sívalt, gárað, og blöðin eru mjög grönn, nær sívöl en grópuð neðst.
Hér sjáum við broddastör með niðurvísandi broddum í axinu. Myndin er tekin á Fljótsdalshéraði árið 1984.