Hjartapuntur
Briza media
er grastegund sem
fyrst fannst í næsta nágrenni höfuðborgarinnar fyrir fáum árum
síðan. Hann vex í villtu landi á nokkru svæði sem gæti bent til að hann sé
búinn að vaxa þarna nokkuð lengi, nokkra áratugi eða jafnvel
aldir (Jóhann Pálsson 2002, Nátt.fr. 71 bls. 30). Ekki er vitað hvernig hann hefur borizt til landsins né hvenær.
Hjartapunturinn ber snotran punt með hjartalaga smáöxum og er auðþekktur
á honum frá öllum öðrum grösum.
Hjartapuntur ber fremur stuttan en
allbreiðan punt. Smáöxin eru stutt og breið, 5-6 blóma, um 4-6 mm í
þvermál, breiðegglaga eða nær kringlótt á löngum, hárfínum puntgreinum.
Axagnir og blómagnir eru hlutfallslega stuttar og breiðar með breiðum
himnufaldi. Blöðin eru flöt, 2-3 mm breið, slíðurhimnan stutt, 0,5-1,5
mm.