Blöð mógrafabrúsans eru bandlaga, 10-40 sm á lengd. Þau neðri eru lengri en þau efri, 2-3 mm breið og flýtur efri endi þeirra í vatnsyfirborðinu; stoðblöð blómanna eru oft breiðari og ná upp fyrir blómskipanina. Blómin eru einkynja í hnöttóttum kollum (brúsakollar) sem fljóta í yfirborðinu eða rísa aðeins upp. Karlblóm eru í þeim efsta sem fellur snemma, en kvenblóm í þeim neðri þar sem aldinin þroskast síðar. Kvenkollarnir eru oftast tveir eða þrír, sá neðsti á stilk sem oft er samvaxinn stönglinum að hluta og virðist því festur nokkuð fyrir ofan öxl stoðblaðsins. Blómhlífarblöðin eru himnukennd, brúnleit, lítið áberandi. Fræflar eru þrír í hverju karlblómi. Frævur kvenkollanna verða að egglaga, um 3 mm löngum, trjónulausum aldinum. Þau sitja þétt saman á kollinum sem þá er orðinn um 1 sm í þvermál.
Mógrafabrúsi fljótandi á yfirborði vatns á Haga á Barðaströnd 3. júlí 1985.
Hér hefur fjarað undan mógrafabrúsanum, en brúsakollarnir sjást vel. Tekið í Grænulág við Dalbæ á Snæfjallaströnd 10. júlí 2010.
Mógrafabrúsi í tjörn á Þingvöllum 16. júlí 2012.